Thursday, July 1, 2010

Myndir

Af einhverjum ástæðum virðist ég aðeins taka myndir af mat, matargerð og fólki að borða.



Svo virðist sem Elín sé alltaf í mat hjá okkur og að hún og Heiðar séu alltaf geðveikt hress á kantinum þegar hana ber að garði. Sem er reyndar rétt.



Hugmyndin með þessum pósti var að taka saman nokkrar handahófskenndar myndir sem við höfum tekið í sumar og reyna að fá nokkurskonar myndasögu af sumrinu. Samkvæmt þessum myndum höfum við lítið annað gert en eldað og borðað sem er kannski dálítið rétt en hey, hvar eru allar vinnustundirnar, útskriftin, fjallgöngurnar, leiðsögnin hans Heiðars í Viðey, opnunin á sýningunni í Hafnarborg, Snæfellsnes, salat og kryddjurtaræktunin, grillveislurnar og allir gestirnir sem við höfum fengið í sumar? No lo se...









Ég viðurkenni að þetta er mjög handahófskennt og bara yfirhöfuð skrítið en ég vona að ég detti hérna inn einhverntíma og ákveði í kjölfarið að gera Bloody Mary og Tikka Masala.
Þessi póstur er því tilraun til að hafa áhrif á framtíðina með óbeinum hætti sem væri vafalaust hægt að útskýra betur með kenningum fyrirbærafræðarinnar (sem ég hélt í svona tvo daga að væri fyrirBURAfræði og hugsaði alltaf með sjálfri mér hvers vegna í andskotanum Heiðar hefði áhuga á slíku... )

Amsterdam

Í dag keyptum við Heiðar flugmiðana til Amsterdam þangað sem við ætlum að flytja, setjast að og stunda framhaldsnám frá og með haustinu. Við fljúgum í gegnum Köben eins og von mín er og vísa - ég flyt aldrei til útlanda öðruvísi en að dvelja nokkra daga á köbenísku landráðasvæði í góðu yfirlæti hjá bróður og mágkonu. Þar að auki er ódýrara að fljúga fyrst með icelandair til Shoppenhavn og síðan með norwegianair til Amsterdam í stað þess að taka eina beina salibunu til Niðurlanda. Að ógleymdri Sophie Calle sýningunni sem vermir veggina í Louisiana í sumar, sú hefur líka áhrif á ferðafyrirkomulagið.

Hvað ætlum við að gera í Amsterdam? Heiðar ætlar að stunda mastersnám í listrannsóknum eða artistic research og ég ætla að halda áfram að bókmenntafræðibibbast en í þetta skiptið á einni hæð ofar. Ég hlakka til að sjá hver munurinn er á grunnámi og framhaldsnámi, færri tímar, fleiri og lengri ritgerðir, flóknari og viðameiri viðfangsefni, meira frelsi og sjálfstæði, meiri vinna og fleiri andvökunætur... Eins og ég hlakka mikið til þá kvíði ég líka fyrir. Kúrsarnir sem við höfum verið að skoða hljóma svo serious og svo *en-point* að ég fæ í magann af spenningi, kvíða, gleði, hræðslu og annarri hringavitleysu. Nám er ekkert dám.

Fyrir utan lærdóm og skólamál verður gaman að kynnast nýrri bók* og nýju landi. Ég hef aldrei komið til Hollands áður en hef kynnst dálítið af Hollendingum. Hver man t.d. ekki eftir henni Soffu sem ég bjó með í Aix, Valerie vinkonu og öllum hinum hollendingunum í Suður-Frakklandi? Þau gáfu mér alveg nasaþefinn af þessari hávöxnu, vinalegu, dálítið nísku eða eigum við að segja ofursparsömu, íþróttalegu, ho bo, frjálslyndu þjóð en að mæta svona á staðinn, anda að sér amsterdamísku lofti og takast á við hollenskt hversdagslíf, hlýtur að vera dálítið annað.

Í Amsterdam ætla ég að vera dugleg að læra og halda áfram í jóga, borða góðan mat og elda boeuf bourguignon handa Heiðari (nautakjöt soðið í einum lítra af rauðvíni er mun viðráðanlegra í Hollandi en á Íslandi), hanga með Hrafnhildi og hinu skemmtilega fólkinu, hjóla, fara í dýragarðinn, safna krukkum (er nýbúin að fatta hvað hægt er að gera við allar krukkurnar sem við erum búin að safna núna í tæp tvö ár, þ.e. fyrir utan að halda innflutningspartý og láta alla gestina drekka úr krukkum... ), skoða öll fínu söfnin og alla markaðina, kaupa túlipana, borða súrinamískan mat, læra hollensku, drekka kaffi með freyðimjólk (n.b. vil fá freyðimjólkurgaur frá Bartaletti í afmælisgjöf), vera duglegri að taka myndir, ættleiða að minnsta kosti eina kisu, fara í piquenique í Wondelpark, í siglingu, í bíó og á geðveika tónleika, drekka rauðvín, skoða list og lesa bækur (efast samt um að það gefist tími í annað en lærdómslestur, bókmenntafræði gengur í grófum dráttum út á að lesa allt það sem aðrir vilja að þú lesir, ekki það sem þú sjálfur vilt lesa, en ef ég skipulegg mig vel ætti ég að geta gripið í t.d. íslenska gullmola inn á milli, Oddnýju Eir, Gyrzlur eða Jón Kalman... ) og hafa það almennt reglulega kósí.

Amsterdam, dálítið eins og Honfleur?

Núna ætla ég að gæða mér á sætkartöflusúpunni sem Heiðar hefur verið að sjóða í marga tíma. Ég er enn á ný orðin hamstur á fljótandi fæði eftir implönt númer 3 og 4. Samt ágætt að vera ekki slefandi fílamaður eins og síðast, og fljótandi-fæðis-dagar minna mann alltaf á hvað það er raunverulega gott að borða. Elda í marga tíma mat úr fersku hráefni og helst ferskum kryddjurtum (það gerist alltaf eitthvað innra með mér í hvert skipti sem ég saxa ferskan kóriander...) til þess eins að setjast niður, stinga gaffli í himnaríki og troða því upp í túllann á sér, tyggja, loka augunum, njóta og að lokum kyngja. Get ekki beðið eftir næsta svoleiðis sessioni.

Ég var dálítið búin að gleyma þessu bloggi en fannst mjög gaman að finna það aftur sérstaklega vegna þess að þeir, netguðirnir, ákváðu að eyða gamla franska blogginu. Hvur veit nema ég taki upp bloggiðkun á ný svona í ljósi tilvonandi landvinninga og annarra ævintýra? Sumir segja að bloggið sé dautt en ég held aftur á móti að aðeins vissar tegundir af bloggi sé dautt. Núna lifa t.d. tískublogg, matarblogg og önnur blogg, sem leggja áherslu á samspil texta og ljósmynda, góðu lífi. En ekki að það skipti neinu máli. Ég blogga bara ef ég vil og svo er svo gaman að lesa gamla pósta löngu eftir að maður skrifaði þá.


*bók - hverskonar Freudian slip er það? Ég ætlaði að segja borg...



Tuesday, March 24, 2009

Uppáhalds litla systir mín er í Tokyo og hefur hugsað sér að búa þar í eitt ár. 

Ég mæli eindregið með að þið fylgist með henni á www.elinknuts.blogspot.com, því hún er skemmtileg sú stutta, jafnvel skemmtilegri en ég og segir skemmtilega frá því hvernig það er að búa með stafrænu klósetti, sjónvarpi sem er staðsett yfir baðkari og húsmóður með hreinlætismaníu.

P.s. Er þetta bara ég eða er gufan alveg að missa það þessa dagana? Að minnsta kosti á milli 11 og 17 á virkum dögum? Spilandi endalausa hljóðgjörninga og viðtöl þar sem rætt er við menn sem telja sig vera að rækta sæeyru og stefna jafnvel með sæeyrun á erlendan markað? Nei, asskotass vitleysa...

Friday, March 6, 2009



Mér er sama hvað hver segir, nú sest ég niður og blogga. Af einhverjum ástæðum virðist Er þetta geópolitísk spurning Indriði? og bloggiðkun lenda neðst á Vera-gera-listanum og mæta afgangi, sem er hvorki skemmtilegt né fallegt. Ég hef einfaldlega bara verið of upptekin við að læra, skrifa, þýða, mæta í tíma, dansa afró, borða coco pops (Jésus, hvað það er gott) og ég veit ekki hvað. Og jú, auðvitað, vera nýbökuð sambýliskona (Þess má geta að akkúrat í þessum skrifuðu orðum sit ég að snæðingi með ruslræningjanum rosalega)

En þar sem ég sat í vinnunni minni um daginn og fylgdist með fólki svo það færi ekki að snerta taflborðinu sem eru til sýnis á Kjarvalsstöðum, rak ég augun í Artforum frá því í desember síðastliðnum. Eins og á svo oft við um tímarit í desember var þetta eintak hálfgert yfirlit yfir menningarviðburði ársins 2008 og bar yfirskriftina best of 2008. Ekki leiðinlegt það, enda aldrei leiðinlegt að skoða Artforum né yfirlit yfir árið 2008. Það er að minnsta kosti mun skemmtilegra en að svindla í Sudoku (sem gengur út á að fylla reitina af tölustöfum alveg random eins fljótt og maður getur án þess að leiða hugann að reglunum í eina einustu mínutu) eða horfa á fólk horfa á taflborð. 

Það sem vakti undrun og kátínu mína framar öllu við lestur þessa ágæta blaðs var árslisti Vashti Bunyan yfir bestu tónlistarviðburði ársins 2008. Vashti Bunyan er tónlistarkona, hálfgerð goðsagnakennd indí-amma sem bæði Joanna Newsom og strákarnir í Animal Collective halda mikið upp á. Hún gaf út eina plötu árið 1970 sem vakti litla athygli á þeim tíma, en þegar Animal Collective gaurarnir fóru að hlusta á Vashti og segja alheimnum frá henni og fá hana jafnvel til að spila á tónleikum hjá sér fór allt að gerast hjá indíömmunni, hún gaf út aðra plötu og þræddi svo allar betri tónlistarhátíðir í heiminum í kjölfarið. Svo húrra fyrir Vashti.

Þegar ég sá nafnið hennar hugsaði ég þar af leiðandi með mér: Mmm þetta verður gott, eitthvað indí og fólk gourmet frá síðasta ári, mmhmm! Gaman gaman, komið með skálarnar og látum leika hefjast!

Þess vegna brá mér frekar í brún þegar Vashti fór að tala um RnB-popp-konuna Moniku og hvernig hún hafði lengi leitað að fyrstu sólóplötunni hennar frá árinu 1998, eða eitthvað og loksins fundið hana á ebay síðla árs 2008. Hún segist dýrka dúettinn sem Monika gerði með annarri RnB-popp-konu að nafni Brandy með laginu The Boy Is Mine. Eða eins og hún orðar það sjálf: "The first bars of intricate harplike notes transfix me everytime."

Ég man að ég og Sigga vinkona mín hlustuðum mikið á þetta lag á okkar yngri árum. Vorum sennilega um fjórtán ára aldurinn þegar Never Say Never með Brandy kom út og skiptumst á að leika Moniku og Brandy til skiptis. Vildum náttúrulega alltaf báðar vera Brandy því hún var svo geðveikt sæt og söng svo vel.

Annars tel ég að þessi skemmtilega RnB-popp-athugasemd indí-ömmunnar hafi vennilega verið kátínuefni dagsins á annars heldur fjörlitlum vinnudegi. 

Svona indí-RnB-kokkteill minnir mig líka óneitanlega mikið á manneskju sem ég þekki ansi vel og held ansi mikið upp á. Sá talar af jafnmikilli ákefð og ástríðu um bönd á borð við Animal Collective og söngkonur eins og Mariha Carey. 

Af einhverjum ástæðum get ég ekki póstað þessu vidjói beint á Er þetta geopólitísk spurning, Indriði? en tjékkið endilega á þessu!





Wednesday, February 11, 2009

Kisuvöntun

Ég ætla ekki að fara leynt með það hversu hræðilegt mér þykir að eiga ekki lengur lítinn og krúttlegan kött. Það er svo sannarlega gaman að vera flutt að heiman, vera orðin svo fullorðin og sjálfstæð að eiga sér sitt eigið kot og það á Íslandi, en kisuvöntunin leynir sér ekki. 

Fyrir tæpu ári og hálfu síðan, tókum við systir mín Elín Inga lítinn sætan bröndóttan og *flöffý* kettling upp á arma okkar. Í fyrstu voru foreldrar okkur heldur óhrifnir af uppátækinu, en það breyttist þegar kisi kom á heimillið og snart þau svo djúpt með sjarma sínum, góðmennsku og kisukrúttlegheitum, að þau hafa aldrei verið söm síðan. Ég er ekki frá því að hann hafi tekið við litlu-dekur-barna-sætinu af Elínu og er dekraður af þeim gömlu eins og um fimm ára gamalt barnabarn væri að ræða. Bæði kalla þau hann prinsinn, mamma gefur honum yfirleitt rækjur að borða og pabbi leyfir honum að sofa í Sölvastólnum sínum. 

Upphaflega fengum við að hafa hann á þeim forsendum að hann myndi flytja með mér þegar að því kæmi, en það var áður en ég hélt til Seyðisfjarðar og svo í kjölfarið til Frakklands í nokkra mánuði. Og þegar ég kom tilbaka var hann búin að tengjast heimillisfólkinu svo vel, jafnvel betur en mér, og staðnum, enda býr húsið í Sæviðarsundinu við kjöraðstæður fyrir kisur, með tröppur af svölunum niður í stóran garð og hundrað kattavini í næsta húsi. 

Það kom því ekki til greina að taka hann með á Sólvallargötuna. Að rífa hann upp með rótum og láta hann setjast að í Vesturbænum - nei, biddu fyrir þér. En það kemur heldur ekki til greina að svíkja Flóka og fá nýjan kött á heimillið, sei sei nei, það væri eins og ef mamma og pabbi fengu sér nýja Ellu þegar hún heldur til Japans í næsta mánuði, t.d. í formi tælensks skiptinema.

Í staðinn fékk ég Orkideu frá móður minni sem ég skírði Jökul. Jökull er svo sannarlega fagur á að líta og braggast bara vel, en hann er alls ekki notalegt að knúsa og svo svarar hann yfirleitt ekki þegar á hann er yrt, ekki einu sinni með einu aumkunarverðu augnatilliti eða mjálmi. 

Og núna þar sem ég ligg upp í rúmi lasin og langar ekkert meira en að hafa lítinn og malandi kisa liggjandi til fóta hjá mér, sit ég uppi með Orkideu sem þykist heita Jökull og heimtar að ég vökvi hann og að ég hafi gluggatjöldin dregin frá svo hann geti baðað sig í sólinni sem skín beint í augun á aumingja veiku mér. 

Hvílík hryggð og leiðindi. Ég ætla að fá mér flatköku og athuga hvort þetta lagist. 

Monday, February 9, 2009

Valentínusardagur

Eins og þið eflaust vitið, elsku vinir mínir og lesendur er ég í afar rómantískum hugleiðingum þessa dagana enda ástfangin eins og gaukur í búri.

Þess vegna fannst mér ekki annað við hæfi en að setjast niður við kertaljós svona rétt fyrir Valentínusardaginn og semja ástaróð til ástmanns míns og elshuga.

Svona var útkoman :

Elsku Heiðar
Viltu gefa mér skeiðar*
Því mig langar svo
Að borða þig
Eins og rjómaís með súkkulaðisósu
Og nóakroppi.

(*hvað í andskotanum rímar við Heiðar ?)

Þetta er ef til vill hvorki fallegt né rómantískt ljóð (en það er svo sannarlega rjómantískt ef einhver var að spá í því…) en féll kannski bara vel í kramið þegar ástmaður minn tjáði mér að honum finndist Valentínusardagurinn viðbjóðslegur dagur, amerísk neysluvara innflutt af Léttbylgjunni undir því yfirskini að geta óáreitt spilað endalaus ömurleg ástarlög í heilan dag, og ef að hann myndi færa mér eitthvað á þessum tiltekna degi yrði það eitthvað ógeðslegt eins og tíu tíma ljósakort.

Í ljósi þessa þykir mér þetta ljóð einkar vel heppnað og passa vel að þeim hugmyndafræðilega ramma sem Heiðar skeiðar styður…

Er ekki ?

P.s. Til hamingju með daginn Kári!