Thursday, July 1, 2010

Myndir

Af einhverjum ástæðum virðist ég aðeins taka myndir af mat, matargerð og fólki að borða.



Svo virðist sem Elín sé alltaf í mat hjá okkur og að hún og Heiðar séu alltaf geðveikt hress á kantinum þegar hana ber að garði. Sem er reyndar rétt.



Hugmyndin með þessum pósti var að taka saman nokkrar handahófskenndar myndir sem við höfum tekið í sumar og reyna að fá nokkurskonar myndasögu af sumrinu. Samkvæmt þessum myndum höfum við lítið annað gert en eldað og borðað sem er kannski dálítið rétt en hey, hvar eru allar vinnustundirnar, útskriftin, fjallgöngurnar, leiðsögnin hans Heiðars í Viðey, opnunin á sýningunni í Hafnarborg, Snæfellsnes, salat og kryddjurtaræktunin, grillveislurnar og allir gestirnir sem við höfum fengið í sumar? No lo se...









Ég viðurkenni að þetta er mjög handahófskennt og bara yfirhöfuð skrítið en ég vona að ég detti hérna inn einhverntíma og ákveði í kjölfarið að gera Bloody Mary og Tikka Masala.
Þessi póstur er því tilraun til að hafa áhrif á framtíðina með óbeinum hætti sem væri vafalaust hægt að útskýra betur með kenningum fyrirbærafræðarinnar (sem ég hélt í svona tvo daga að væri fyrirBURAfræði og hugsaði alltaf með sjálfri mér hvers vegna í andskotanum Heiðar hefði áhuga á slíku... )

Amsterdam

Í dag keyptum við Heiðar flugmiðana til Amsterdam þangað sem við ætlum að flytja, setjast að og stunda framhaldsnám frá og með haustinu. Við fljúgum í gegnum Köben eins og von mín er og vísa - ég flyt aldrei til útlanda öðruvísi en að dvelja nokkra daga á köbenísku landráðasvæði í góðu yfirlæti hjá bróður og mágkonu. Þar að auki er ódýrara að fljúga fyrst með icelandair til Shoppenhavn og síðan með norwegianair til Amsterdam í stað þess að taka eina beina salibunu til Niðurlanda. Að ógleymdri Sophie Calle sýningunni sem vermir veggina í Louisiana í sumar, sú hefur líka áhrif á ferðafyrirkomulagið.

Hvað ætlum við að gera í Amsterdam? Heiðar ætlar að stunda mastersnám í listrannsóknum eða artistic research og ég ætla að halda áfram að bókmenntafræðibibbast en í þetta skiptið á einni hæð ofar. Ég hlakka til að sjá hver munurinn er á grunnámi og framhaldsnámi, færri tímar, fleiri og lengri ritgerðir, flóknari og viðameiri viðfangsefni, meira frelsi og sjálfstæði, meiri vinna og fleiri andvökunætur... Eins og ég hlakka mikið til þá kvíði ég líka fyrir. Kúrsarnir sem við höfum verið að skoða hljóma svo serious og svo *en-point* að ég fæ í magann af spenningi, kvíða, gleði, hræðslu og annarri hringavitleysu. Nám er ekkert dám.

Fyrir utan lærdóm og skólamál verður gaman að kynnast nýrri bók* og nýju landi. Ég hef aldrei komið til Hollands áður en hef kynnst dálítið af Hollendingum. Hver man t.d. ekki eftir henni Soffu sem ég bjó með í Aix, Valerie vinkonu og öllum hinum hollendingunum í Suður-Frakklandi? Þau gáfu mér alveg nasaþefinn af þessari hávöxnu, vinalegu, dálítið nísku eða eigum við að segja ofursparsömu, íþróttalegu, ho bo, frjálslyndu þjóð en að mæta svona á staðinn, anda að sér amsterdamísku lofti og takast á við hollenskt hversdagslíf, hlýtur að vera dálítið annað.

Í Amsterdam ætla ég að vera dugleg að læra og halda áfram í jóga, borða góðan mat og elda boeuf bourguignon handa Heiðari (nautakjöt soðið í einum lítra af rauðvíni er mun viðráðanlegra í Hollandi en á Íslandi), hanga með Hrafnhildi og hinu skemmtilega fólkinu, hjóla, fara í dýragarðinn, safna krukkum (er nýbúin að fatta hvað hægt er að gera við allar krukkurnar sem við erum búin að safna núna í tæp tvö ár, þ.e. fyrir utan að halda innflutningspartý og láta alla gestina drekka úr krukkum... ), skoða öll fínu söfnin og alla markaðina, kaupa túlipana, borða súrinamískan mat, læra hollensku, drekka kaffi með freyðimjólk (n.b. vil fá freyðimjólkurgaur frá Bartaletti í afmælisgjöf), vera duglegri að taka myndir, ættleiða að minnsta kosti eina kisu, fara í piquenique í Wondelpark, í siglingu, í bíó og á geðveika tónleika, drekka rauðvín, skoða list og lesa bækur (efast samt um að það gefist tími í annað en lærdómslestur, bókmenntafræði gengur í grófum dráttum út á að lesa allt það sem aðrir vilja að þú lesir, ekki það sem þú sjálfur vilt lesa, en ef ég skipulegg mig vel ætti ég að geta gripið í t.d. íslenska gullmola inn á milli, Oddnýju Eir, Gyrzlur eða Jón Kalman... ) og hafa það almennt reglulega kósí.

Amsterdam, dálítið eins og Honfleur?

Núna ætla ég að gæða mér á sætkartöflusúpunni sem Heiðar hefur verið að sjóða í marga tíma. Ég er enn á ný orðin hamstur á fljótandi fæði eftir implönt númer 3 og 4. Samt ágætt að vera ekki slefandi fílamaður eins og síðast, og fljótandi-fæðis-dagar minna mann alltaf á hvað það er raunverulega gott að borða. Elda í marga tíma mat úr fersku hráefni og helst ferskum kryddjurtum (það gerist alltaf eitthvað innra með mér í hvert skipti sem ég saxa ferskan kóriander...) til þess eins að setjast niður, stinga gaffli í himnaríki og troða því upp í túllann á sér, tyggja, loka augunum, njóta og að lokum kyngja. Get ekki beðið eftir næsta svoleiðis sessioni.

Ég var dálítið búin að gleyma þessu bloggi en fannst mjög gaman að finna það aftur sérstaklega vegna þess að þeir, netguðirnir, ákváðu að eyða gamla franska blogginu. Hvur veit nema ég taki upp bloggiðkun á ný svona í ljósi tilvonandi landvinninga og annarra ævintýra? Sumir segja að bloggið sé dautt en ég held aftur á móti að aðeins vissar tegundir af bloggi sé dautt. Núna lifa t.d. tískublogg, matarblogg og önnur blogg, sem leggja áherslu á samspil texta og ljósmynda, góðu lífi. En ekki að það skipti neinu máli. Ég blogga bara ef ég vil og svo er svo gaman að lesa gamla pósta löngu eftir að maður skrifaði þá.


*bók - hverskonar Freudian slip er það? Ég ætlaði að segja borg...