Wednesday, February 11, 2009

Kisuvöntun

Ég ætla ekki að fara leynt með það hversu hræðilegt mér þykir að eiga ekki lengur lítinn og krúttlegan kött. Það er svo sannarlega gaman að vera flutt að heiman, vera orðin svo fullorðin og sjálfstæð að eiga sér sitt eigið kot og það á Íslandi, en kisuvöntunin leynir sér ekki. 

Fyrir tæpu ári og hálfu síðan, tókum við systir mín Elín Inga lítinn sætan bröndóttan og *flöffý* kettling upp á arma okkar. Í fyrstu voru foreldrar okkur heldur óhrifnir af uppátækinu, en það breyttist þegar kisi kom á heimillið og snart þau svo djúpt með sjarma sínum, góðmennsku og kisukrúttlegheitum, að þau hafa aldrei verið söm síðan. Ég er ekki frá því að hann hafi tekið við litlu-dekur-barna-sætinu af Elínu og er dekraður af þeim gömlu eins og um fimm ára gamalt barnabarn væri að ræða. Bæði kalla þau hann prinsinn, mamma gefur honum yfirleitt rækjur að borða og pabbi leyfir honum að sofa í Sölvastólnum sínum. 

Upphaflega fengum við að hafa hann á þeim forsendum að hann myndi flytja með mér þegar að því kæmi, en það var áður en ég hélt til Seyðisfjarðar og svo í kjölfarið til Frakklands í nokkra mánuði. Og þegar ég kom tilbaka var hann búin að tengjast heimillisfólkinu svo vel, jafnvel betur en mér, og staðnum, enda býr húsið í Sæviðarsundinu við kjöraðstæður fyrir kisur, með tröppur af svölunum niður í stóran garð og hundrað kattavini í næsta húsi. 

Það kom því ekki til greina að taka hann með á Sólvallargötuna. Að rífa hann upp með rótum og láta hann setjast að í Vesturbænum - nei, biddu fyrir þér. En það kemur heldur ekki til greina að svíkja Flóka og fá nýjan kött á heimillið, sei sei nei, það væri eins og ef mamma og pabbi fengu sér nýja Ellu þegar hún heldur til Japans í næsta mánuði, t.d. í formi tælensks skiptinema.

Í staðinn fékk ég Orkideu frá móður minni sem ég skírði Jökul. Jökull er svo sannarlega fagur á að líta og braggast bara vel, en hann er alls ekki notalegt að knúsa og svo svarar hann yfirleitt ekki þegar á hann er yrt, ekki einu sinni með einu aumkunarverðu augnatilliti eða mjálmi. 

Og núna þar sem ég ligg upp í rúmi lasin og langar ekkert meira en að hafa lítinn og malandi kisa liggjandi til fóta hjá mér, sit ég uppi með Orkideu sem þykist heita Jökull og heimtar að ég vökvi hann og að ég hafi gluggatjöldin dregin frá svo hann geti baðað sig í sólinni sem skín beint í augun á aumingja veiku mér. 

Hvílík hryggð og leiðindi. Ég ætla að fá mér flatköku og athuga hvort þetta lagist. 

No comments:

Post a Comment